Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, segist hafa efasemdir um að það náist að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið áður en krónan verður sett á flot en vonast til að það verði hægt fljótlega eftir það. Tekur hún þar undir orð forsætisráðherra, Geirs H. Haarde. Segir hún lykilatriði að stjórnvöld og Seðlabankinn séu samstiga í því hvernig staðið verður að sameiningu. Þetta kom fram í máli Ingibjargar Sólrúnar að loknum þingflokksfundi Samfylkingarinnar nú síðdegis.
Hún segir ljóst að breyta þurfi lögum til þess að sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann á ný. Um flóknar stofnanir sé að ræða og væntanlega þurfi að skilgreina hlutverk, stjórnskipulag og verkaskiptingu innan sameinaðar stofnunar.
Geir sagði nú síðdegis að krónan yrði væntanlega sett á flot fljótlega eftir að lánið verður afgreitt frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum sem gæti gerst innan skamms.
Geir sagði að ákveðið hafi verið að skipa vinnuhóp varðandi sameiningu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans.