Það hvort Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, hafi búið yfir innherjaupplýsingum um hlutabréf Landsbankans þegar hann seldi bréf sín í bankanum, veltur á því hvað nákvæmlega var rætt á fundi viðskiptaráðherra með Alistair Darling hinn 2. september, segir sérfræðingur í verðbréfamarkaðsrétti, en Baldur sat fundinn.
Á fundinum var meðal annars rætt um að breyta Icesave-útibúi Landsbankans í dótturfélag þannig að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og þar með íslenska ríkið bæri ekki ábyrgð starfsemi dótturfélagsins. Fram hefur komið í fjölmiðlum að vandi Icesave-reikninga Landsbankans hafi verið meginefni fundarins. Baldur hefur sjálfur sagt að það sé misskilningur að fundurinn hafi snúist um stöðu bankans.
Í reglugerð 630/2005, sem sett er með stoð í lögum um verðbréfaviðskipti, kemur fram að með innherjaupplýsingum sé átt við nægjanlega tilgreindar upplýsingar sem ekki hafa verið gerðar opinberar og varða beint eða óbeint útgefendur verðbréfa, verðbréfin sjálf eða önnur atriði og eru líklegar til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð fjármálagerninganna ef upplýsingarnar væru opinberar. Upplýsingarnar verða að vera nægilega nákvæmar til að unnt sé að draga ályktun um möguleg áhrif þeirra aðstæðna eða atburðar á verð hlutabréfa.
Tveim vikum eftir fundinn með Darling seldi Baldur hlutabréfaeign sína í Landsbankanum en upphæð viðskiptanna liggur ekki fyrir. Ef ræddar voru upplýsingar á fundinum, sem hefðu haft verðmyndandi áhrif á bréf í Landsbankanum, hefðu þær verið opinberar, var Baldur hugsanlega tímabundinn innherji í skilningi laga um verðbréfaviðskipti, þegar hann seldi bréfin.
Það er hins vegar mjög erfitt mat sem þarf að framkvæma þegar metið er hvort upplýsingar teljist innherjaupplýsingar í skilningi laganna eða ekki, að sögn sérfræðings í verðbréfamarkaðsrétti. „Það er ekki sjálfgefið að vandi útibús séu upplýsingar sem geti haft áhrif á verðmyndun í félaginu,“ segir hann. Að hans sögn þarf að vera á kristaltæru hvers eðlis þær upplýsingar voru sem Baldri áskotnuðust á fundinum áður en metið er hvort þær upplýsingar geti fallið undir hugtak laganna um innherjaupplýsingar.
Samkvæmt 123. grein laga um verðbréfaviðskipti var Baldri óheimilt að selja hlutabréf vegna þeirra upplýsinga, sem hann bjó yfir, ef þessar upplýsingar falla undir skilgreiningu reglugerðarinnar og laganna á hugtakinu innherjaupplýsingar.
FME fer með rannsókn innherjaviðskipta. Þær upplýsingar fengust hjá FME í gær að eftirlitið væri almennt að rannsaka viðskipti með hlutabréf í aðdraganda hruns bankanna og það gæfi almennt ekki upp nöfn þeirra sem sættu rannsókn hverju sinni. Ef FME kemst að þeirri niðurstöðu að ekkert hafi verið athugunarvert í meintum innherjaviðskiptum endar málið þar, en ella sendir það gögn áfram til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra að lokinni rannsókn.