Sameining Fjármálaeftirlitsins (FME) og Seðlabankans er góður kostur að mati bæði Geirs H. Haarde forsætisráðherra og Lúðvíks Bergvinssonar, formanns þingflokks Samfylkingarinnar. „Reynslan hefur sýnt okkur að það er lakari kostur að dreifa kröftunum með þessum hætti,“ sagði Geir við Morgunblaðið.
Þingflokkur Samfylkingarinnar fundaði tvisvar í gær og meðal umræðuefnanna var ræða Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabankans, á fundi Viðskiptaráðs í gær. Þar sagði Davíð að ekki hefði verið hlustað á viðvörunarorð sín um slæma stöðu bankanna. Hann kvaðst að loknum fundi í London í febrúar hafa greint ráðherrum frá áhyggjum Breta af íslenska bankakerfinu.
FME var klofið frá Seðlabankanum fyrir áratug en forsætisráðherra telur stjórnarflokkana samstiga um að stofnanirnar verði sameinaðar á ný. Lúðvík sagði breytinga þörf áður en krónan yrði sett á flot en til stendur að gera það fyrir áramót. Geir sagði þetta tvennt hins vegar ekki tengjast og taldi í gærkvöldi ólíklegt að sameiningin gengi svo hratt í gegn.
Spurður hvort auglýsa þyrfti lausar til umsóknar stöður stjórnenda sameinaðrar stofnunar svaraði Geir því til að farið yrði í gegnum það mál þegar þar að kæmi.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra benti á að Seðlabankinn hefði fengið það verkefni að reyna að leita leiða með lánum að utan til þess að byggja upp öflugan gjaldeyrisforða. „Því miður höfðu þeir ekki erindi sem erfiði.“
Jón Sigurðsson, formaður stjórnar FME, segir í grein í Morgunblaðinu í dag að ábyrgðin á hruninu hér heima sé fyrst og fremst bankanna sjálfra og stjórnenda þeirra en ekki eftirlitsstofnana eins og FME eða Seðlabankans.