Tæki þriðjungur þeirra sem eiga viðbótarlífeyrissparnað hann núna út fengi ríkið tæpa 34 milljarða skattgreiðslu í sinn hlut. Tæki helmingurinn hann út væri upphæðin tæpur 51 milljarður króna og ef allir gerðu það næmi skatturinn ríflega 101 milljarði króna.
Aðgerðarhópi ríkisstjórnarflokkanna gegn fjárhagsvanda heimila hugnast vel að fólk fái að taka séreignarsparnaðinn út en telur að mikilvægt sé að slá á væntingar fólks vegna málsins. Fólk þarf hins vegar að vera meðvitað um að greiða þarf tekjuskatt af séreignarsparnaði. Þetta segir Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem situr í aðgerðarhópnum.
Hún segir að ekki sé horft til áhrifa skattgreiðslnanna á ríkissjóð þegar leiðin sé skoðuð heldur að fjármunirnir geti bjargað fjölskyldum úr fjárhagsvanda. „Auðvitað þykir okkur ágætt að fá tekjur en við höfum að sjálfsögðu ekki verið að hugsa um þetta út frá því sjónarmiði. Okkur hefur fyrst og fremst fundist þetta áhugaverð leið fyrir fólk í fjárhagsvanda.“
284 milljarðar liggja í séreignarsjóðum, segir Ólöf. Hún segir gert ráð fyrir því að aðeins hluti tæki sjóðinn sinn út kæmi til lagabreytinga svo fólk geti sótt viðbótarlífeyrissparnaðinn sinn strax.
„Það getur þá hugsanlega byggt upp lífeyrissparnaðinn sinn aftur síðar sé það í aðstöðu til þess,“ segir hún.
Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir hægt að komast hjá því að eigendur viðbótarlífeyris greiði skattinn. Millifæra mætti peningana frá séreignarsjóðunum til lánastofnana.
„Þá myndi séreignarsjóðseigandi taka lán hjá sjálfum sér og nota það til að borga niður skuldina. Þá væri hugsanlega hægt að láta upphæðina ganga aftur inn í séreignarsjóðinn þegar hann seldi,“ segir Þórólfur. „Þá yrði búið til skuldabréf með veð í eigninni hjá þeim sem annast sparnaðinn og ef viðkomandi selur aftur eignina þyrfti hann að borga aftur inn í sjóðinn. Þannig væri því hægt að fara framhjá þessu vandamáli með skattgreiðslurnar,“ segir Þórólfur. Þannig yrði niðurgreiðsla skulda með viðbótarlífeyrissparnaðinum aðeins millifærsla milli reikninga. „Með þessu móti myndi peningurinn gera miklu meira gagn,“ segir Þórólfur.