Það tekur rúmt hálft ár, eða 34 vikur, að fá varahluti í Vestmannaeyjaferjuna Herjólf. Annar af jafnvægisuggum skipsins bilaði í síðustu viku, að því er fram kemur á eyjafrettir.is.
Einn uggi hefur þó 60% virkni miðað við fulla ferð skipsins en ugginn hefur ekkert verið notaður síðan hinn bilaði. Hins vegar er hætt við að fleiri ferðir falli úr nú þegar verstu vetrarveðrin ganga yfir. Ekki þarf að sigla skipinu utan til viðgerðar þar sem hægt er að taka uggann út í flotkvínni á Akureyri.