„Ég bauð Geir Haarde að fara fyrir leynilegri sendinefnd til Noregs 8. október ef hann sendi með mér einn seðlabankastjóra, þó ekki Davíð Oddsson, og ráðuneytisstjórann í fjármálaráðuneytinu, til að reyna að landa láni frá Noregi. Ég var búinn að tala á hverjum einasta degi við fjármálaráðherra Noregs, sem ég þekki mjög vel og ég trúi enn að það hefði verið hægt,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon á fundi VG á Egilsstöðum í gærkvöld.
Fjallað er um fundinn í Austurglugganum. Steingrímur J. sagði VG tilbúna í hvers konar minnihluta-, bráðabirgða- eða björgunarstjórn sem í stuttan tíma sæti sem starfsstjórn uns óumflýjanlegar kosningar færu fram, helst í febrúar og alls ekki seinna en í maí.
„Við buðum upp á þjóðstjórn í byrjun október. Ég var í Strassbourg 28. september þegar Glitnir var yfirtekinn og flýtti mér heim og átti fund með forsætisráðherra um kvöldið. Við sátum langt inn í nóttina og ég sagði við Geir Haarde að slíkir hlutir væru að ganga yfir landið að við ættum að mynda þjóðstjórn. Ég tel í raun og veru að hann hafi ekki verið mér ósammála um það. Tíminn var þó ekki kominn að hans mati og virðist ekki vera kominn enn. Ríkisstjórnin taldi sig vera einfæra um að leysa verkefnin og við það situr,“ sagði Steingrímur á fundi VG á Egilsstöðum.