Engar fréttir voru í íslenskum fjölmiðlum í byrjun september sl. um vanda Icesave-útibús Landsbankans eða að bankinn ætti í viðræðum við breska fjármálaeftirlitið um að breyta útibúinu í dótturfélag.
FME hafði aðeins tveim vikum fyrr framkvæmt álagspróf sem sýndi sterka stöðu bankanna. Í Morgunblaðinu hinn 17. september, um svipað leyti og Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, seldi hlutabréf sín í Landsbankanum, birtist frétt í Morgunblaðinu um að breskir sparifjáreigendur treystu íslensku bönkunum betur en þeim bresku og innlánsreikningar íslensku bankanna í Bretlandi hefðu gildnað dagana á undan.
Viðskiptaráðherra fundaði með fjármálaráðherra Breta, Alistair Darling, hinn 2. september til þess að ræða málefni Icesave-útibús Landsbankans og Baldur sat fundinn.
„Það er misskilningur að fundurinn í London hafi snúist um stöðu Landsbankans,“ sagði Baldur í samtali við DV hinn 27. október. „Ég hafði þá [þegar hann seldi bréfin] engar upplýsingar um Landsbankann sem markaðurinn hafði ekki,“ sagði Baldur við Viðskiptablaðið 29. október.
Helgi Hjörvar alþingismaður sendi Baldri tölvupóst í byrjun nóvember þar sem hann spurði hvaða dag Baldur hefði selt, hversu umfangsmikil viðskiptin hefðu verið og hvort hann hefði selt bréfin í eigin nafni eða í nafni dótturfélags. „Mér til undrunar neitaði hann að svara og gaf þá skýringu að hann teldi mig ekki hafa neitt eftirlitshlutverk í málinu,“ segir Helgi. „Ég minnti hann þá á eftirlitshlutverk Alþingis með störfum framkvæmdavaldsins og bað hann að endurskoða afstöðu sína, en án árangurs. Ég tel það einnig mjög ámælisvert að hann skyldi ekki upplýsa ráðherrann [Árna Mathiesen] um hlutabréfaeign sína í Landsbankanum.“