Dæmi um ríflega 100% hækkun á matvöru

Sverrir Vilhelmsson

Matvara sem verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á sl. þriðjudag hefur hækkað um tugi prósentna síðastliðið hálft ár. Algengt er að vörur hafi hækkað um 30%-50% frá því í verðkönnun verðlagseftirlitsins í vor en dæmi eru um yfir 100% verðhækkun. Verð hefur almennt hækkað mest í lágvöruverðsverslunum á milli kannana.

Á vef ASÍ kemur fram að verðbreytingar voru skoðaðar í Bónus, Krónunni, Nettó, Kaskó, Hagkaupum, Nóatúni, Samkaupum-Úrval Hafnarfirði og Fjarðarkaupum.

Brauð hækkar í flestum tilvikum um meira en 50%

Verð á brauði, kexi, pasta, og hrísgrjónum sem skoðað var, hækkaði í flestum tilvikum yfir 50% í lágvöruverðsverslunum en nokkuð minna í öðrum verslunum. Sem dæmi má nefna að Fittý samlokubrauð hækkaði um 66% í Kaskó, 63% í Nettó, 57% í Krónunni og 47% í Bónus á milli kannana í lok mars og nú í nóvember. Í öðrum verslunum hækkaði samskonar brauð um 12-17%. Barilla tortellini hækkað á sama tímabili um 86% í Bónus, 70 % í Nettó, 58% í Fjarðarkaupum og 45% í Kaskó en um 32% í Nóatúni og 19% í Hagkaupum og Samkaupum-Úrval.

Bananar hækkuðu um 83% í Bónus

Verð á mjólk hefur hækkað um 25-30% frá því í vor. Í lágvöruverðsverðsverslunum hefur mjólkurlítrinn hækkað um 30%, kostaði að meðaltali kr. 74 í vor en nú kr. 96. Í öðrum verslunum hefur mjólkurlítrinn að meðaltali hækkað um 26%, úr kr. 82 í kr. 103. Verð á AB-mjólk hefur hækkað um 30%-50% á milli verðkannanna. Mest í Bónus og Krónunni um 52%, en um 30%-40% í öðrum verslunum.

Grænmeti og ávextir sem skoðaðir voru hafa einnig hækkað mikið í verði. Kílóverð á banönum hefur hækkað mest í Bónus um 83% úr kr. 98 í kr. 179 frá því í vor. Í Kaskó nemur hækkunin 49%, í Nettó 47%, í Krónunni 47% og í Hagkaupum, Nóatúni og Samkaupum-Úrval milli 24% og 35%. Minnst hafa bananarnir hækkað í Fjarðarkaupum um 5%.

106% hækkun á púðursykri í Krónunni

Af öðrum vörum má nefna púðursykur frá Dansukker hefur hækkað um 106% í Krónunni og 88% í Bónus frá því vor. Um 47% í Nóatúni, 38% í Fjarðarkaupum og 18% í Hagkaupum og er nú dýrari í lágvöruverðsverslununum en í Hagkaupum og á svipuðu verði og í Nóatúni.

Þegar skoðaður er munur á meðalverði í lágvöruverðsverslunum og öðrum stórmörkuðum nú í nóvember og í vor má sjá að í flestum tilvikum er mun minni munur á meðalverði í þessum verslunargerðum nú en í vor. Verð í lágvöruverðsverslunum hefur almennt hækkað meira en í öðrum verslunum sem þýðir samkvæmt þessu að verðmunur á milli lágvöruverðsverslana og annarra stórmarkaða hefur minnkað.

Sjá samanburð á verði á milli tímabila

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka