Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, sagði á Alþingi í dag, að verið væri að stíga fyrstu skrefin út úr kreppunni með því að afla lánsfjár svo hægt verði að koma gjaldeyrisviðskiptum í samt lag.
Árni sagði, að alvarlegasta afleiðing þess að bankaranir hrundu, sé að gjaldeyrismarkaðrnir hafa verið óvirkir á undanförnum vikum. Verðmyndun á krónunni hefði ekki verið eðlileg og viðskipti með krónuna ekki heldur.
Ef þetta ástand yrði viðvarandi yrði miklu þrengra um að bregðast við í framhaldinu og þess vegna væri lykilatriði, að koma gjaldeyrismarkaði á réttan kjöl á ný. Til þess þurfi nokkra fjármuni og þá skipti máli að hafa bakstuðning í þeim lánum, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og nágrannaþjóðir Íslands munu veita.
Árni sagði, að menn hefðu áhyggjur af því að verið væri að
eyða peningum við að koma krónunni á flot á ný. Það hljóti að vera
misskilingur því ef mikið útstreymi verði á gjaldeyri séu þessi lán til
staðar til að koma í veg fyrir gjaldeyrisþurrð og koma í veg fyrir að verðmyndun á gjaldeyri verði af skorti. Lánið geri þannig kleift að láta markaðinn mynda verð á
krónunni aftur.
Fjármálaráðherra sagði, að verðbólgan væri nú að fara verst með heimili og fyrirtæki og þegar böndum verði komið á gjaldeyrismarkaðinn og
gengi krónunnar verður stöðugt vinni það gegn verðbólgunni.