Geir H. Haarde forsætisráðherra segir Svía hafa óskað eftir upplýsingum um hvað Íslendingar hygðust gera í ríkisfjármálum frá og með árinu 2010. „Það liggur ekki á að svara þeirri spurningu enda höfum við ekki alveg gert það upp við okkur.“ Geir segir íslensk stjórnvöld ekki pirruð út í Svía, heldur í góðu samstarfi við þá og þakklát fyrir aðstoðina
„Við höfum tekið eftir því að afstaða Svíþjóðar er önnur en annarra Norðurlandanna. Við höfum ekki bara fengið jákvæð viðbrögð frá Noregi, heldur einnig frá Danmörku. Svíar virðast ekki elska okkur jafnmikið og hinir.“
Þetta segir háttsettur heimildarmaður í íslensku ríkisstjórninni, að því er greint var frá á sænska viðskiptavefnum e24.se á mánudaginn. Þar segir að ummæli fjármálaráðherra Svíþjóðar, Anders Borg, um að Íslendingar þurfi að sýna fram á ,,trúverðuga“ aðgerðaáætlun vegna lánveitingar séu ekki vinsæl hjá íslensku stjórninni.
Sænski viðskiptavefurinn hefur það eftir heimildarmanni sínum að Íslendingar hafi þegar kynnt aðgerðaáætlun sína.