Kreppubónus hjá Alcan

mbl.is/Ómar

Alcan á Íslandi hefur ákveðið að greiða starfsmönnum fyrirtækisins 1,5 mánaðarlaun í aukagreiðslu um miðjan desember. Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi, segir þetta gert vegna kreppunnar sem ríki á Íslandi en hún komi illa niður á hinum almenna borgara sem alltaf hefur staðið við sitt. Alltaf sé talað um þá sem hafi tapað milljarði eða meira en minna hafi farið fyrir fréttum af þeim sem hafi tapað einni til tveimur milljónum króna af sparifé sínu. Einhverju sem fólk hefur kannski nurlað saman á löngum tíma. Eins hafi afborganir af lánum hækkað mikið og stundum orðnar erfiðar fyrir þá sem alltaf hafa staðið við sínar skuldbindingar.

Að sögn Rannveigar fá þeir sem hafa starfað lengur en í eitt ár hjá fyrirtækinu ein og hálf mánaðarlaun um miðjan desember en  fyrir þá sem hafa starfað skemur fá einn mánuð aukalega. Flestir starfsmenn fá því ein og hálf mánaðarlaun því meðalstarfsaldur hjá fyrirtækinu eru tæp fimmtán ár. „Við viljum líka þakka þessu fólki fyrir að hafa haldið tryggð við okkur," segir Rannveig.

Hún segir að þetta kosti fyrirtækið talsvert en stjórnendur Alcan telji að það skipti mestu núna að styðja við bakið á starfsmönnum fyrirtækisins. Fyrirtækið sé skuldlaust og rekstur þess góður.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert