Margir sóttu um vinnu hjá Latabæ

Magnús Scheving í hlutverki íþróttaálfsins Sportakusar.
Magnús Scheving í hlutverki íþróttaálfsins Sportakusar. Reuters

Um 250 atvinnuumsóknir bárust Latabæ í byrjun október eftir að íslenska bankakerfið hrundi. Magnús Scheving, sem stýrir fyrirtækinu, segir við Reutersfréttastofuna að margar af þessum umsóknum hafi verið frá bankastarfsmönnum. Um 50 manns starfa að jafnaði hjá Latabæ en þegar verið er að framleiða sjónvarpsþáttaraðir eru starfsmennirnir um 160.

Í ýtarlegri umfjöllun Reuters um Magnús og Latabæ  segir Magnús m.a. að lífskjörin á Íslandi muni versna umtalsvert á næstunni vegna bankakreppunnar. „En við munum ná okkur," bætir hann við.

Reuters segir, að ef Ísland væri Latibær væri ljóst að hrun bankanna væri runnið undan rifjum Glanna glæps. Í hefðbundnum þætti um Latabæ væri með einhverjum hætti hindrað, að íþróttaálfurinn Sportacus geti komið til bjargar þar til börnunum í bænum tækist að frelsa hann.

En þegar Magnús er spurður hvað íþróttaálfurinn myndi gera við fólk, sem hefði komið hagkerfi bæði Íslands og heimsins á ystu nöf svaraði hann eftir nokkra umhugsun:

„Það er engum einum um að kenna. Það voru gerð mörg mistök á þessari vegferð. Fólk var ekki í jafnvægi, það tók ákvarðanir út frá röngum forsendum og var allt of gráðugt," segir hann.

„En nú er ekki tímabært að vera með ásakanir. Nú þarf þetta fólk meira á faðmlögum að halda." 

Umfjöllun Reuters

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka