Ónýtur banki bjargar ónýtri krónu

 

Margir ráðherrar voru fjarverandi þegar rætt var um lánið frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum í þinginu. Einungis forsvarsmenn stjórnarflokkanna voru viðstaddir megnið af tímanum, Þingmenn Samfylkingar deildu áfram hart á forsætisráðherra fyrir að halda hlífiskildi yfir seðlabankastjóra. Geir H. Haarde sagði hinsvegar að ekkert væri upp á Seðlabankann að klaga. Hann sagði að fagmenn Seðlabankans hefðu undirbúið að setja krónuna á flot og það yrði gert á næstu dögum.  Menn hefðu unnið vinnuna sína í þeim banka.

Helgi Hjörvar þingmaður Samfylkingarinnar sagði að þótt trúmennska væri sannarlega dyggð, mætti of mikið af öllu gera. Það hvíldi á trúverðugleika hvort þær aðgerðir sem ráðist yrði í tækjust eða ekki. Hann sagði forystumenn og þingmenn úr öllum flokkum hafa lýst því yfir að það væri nauðsynlegt að gera breytingar á yfirstjórn Seðlabankans og styrkja hann faglega.

Siv Friðleifsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins sagði ríkisstjórnina óstarfhæfa. Hún væri mállaus að horfa upp á þetta. Stjórnarflokkarnir skiptust á að fara í pontu og berja hvorn annan með Seðlabankanum.

Þingmenn hrópuðu á Siv úr salnum og spurðu hvort hún hefði ekki verið á miðstjórnarfundi í Framsóknarflokknum.

Siv hélt áfram og sagðist vorkenna forsætisráðherra að þurfa að sitja undir þessu. Hann væri að reyna að standa vaktina en samstarfsflokkurinn réðist á hann í beinni útsendingu. Hún sagðist ætla að sleppa því að tala í annarri umferð enda hefði hún ekki lyst á því.

Formaður Vinstri grænna virtist ekki vorkenna forystumönnum ríkisstjórnarinnar. Að minnsta kosti hindraði það hann ekki í að taka til máls. Hann sagði að það væri boðað að lánið stóra yrði jafnvel notað í einhverja tilraun til þess að stýra gengi krónunnar. Það væri stórhættulegt. Hvað ef það mistækist og tugir eða hundruðir milljarðar færu forgörðum. Þá væri verr af stað farið en heima setið.

Og Steingrími fannst skjóta skökku við að Samfylkingin kæmi að björgun krónunnar. Og spurði hver þessi íslenska króna væri sem ætti að bjarga fyrir sjöhundruð milljarða. Jú, hann sagði að það væri sama krónan og Samfylkingin notaði alla orku sína til að segja að væri ónýt. Hún segði Seðlabankann ónýtan og trausti rúinn en hann ætti samt að fá það verkefni að koma krónunni á réttan kjöl.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert