Óvissa um inngrip á gjaldeyrismarkaði

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ómar

Stjórnendur Seðlabankans gefa ekki upp með hvaða hætti inngrip á gjaldeyrismarkaðinn verða þegar krónan verður sett á flot. Sagt er að stefnan sé „óljós með vilja“. Það á að hræða fólk frá því að reyna að spila á gengi krónunnar og auka þannig á sveiflurnar.

Reyndar verður erfitt að spila mikið á kerfið fyrst um sinn með spákaupmennsku því áfram verða gjaldeyrishöft á fjármagnsviðskipti í fyrsta atrennu. Það þýðir að aðeins verður hægt að kaupa gjaldeyri til hvers konar vöruviðskipta, kaupa á þjónustu og ferðalaga.

Þeir sem Morgunblaðið ræddi við í gær telja að reynt verði að endurvekja gjaldeyrismarkað milli banka, sem Seðlabankinn mun gera upp. Hann einn, eins og reyndar Sparisjóðabankinn, hafi virkar greiðslurásir til erlendra banka.

Á millibankamarkaði verði lögð fram kaup- og sölutilboð á gjaldeyri. Fyrst um sinn muni Seðlabankinn ekki grípa mikið inn í á meðan jafnvægisgengi, þar sem sveiflur á gengi krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum eru litlar, næst. Flestir búast við að gengi krónunnar lækki nokkuð áður en það gerist. Þá mun hlutverk Seðlabankans felast í því að taka þátt í viðskiptum með krónur í litlum mæli og sem næst jafnvægisgengi.

Með þessum hætti lágmarki bankinn það magn af gjaldeyri sem þarf til að styðja við krónuna. Til er áætlun um það, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, hversu mikinn hluta af láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á að nota til þess. Óráðlegt sé að fara geyst af stað til að gjaldeyrisforðinn brenni ekki upp á meðan óraunhæft gengi er varið. Einungis eigi að minnka sveiflur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert