Björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar er nú kominn með fiskibátinn, sem var aflvana út af Reykjanesskaga, í tog. Báturinn, Grímsnes GK–555, verður sennilega reginn til hafnar í Njarðvík. Sami bátur strandaði á sandrifi við Meðalland í gær og fylgdi varðskip honum síðan til Vestmannaeyja.
Auk björgunarskipsins Odds V. Gíslasonar í Grindavík, sem nú er með Grímsnes í togi, fór einnig af stað björgunarskip frá Sandgerði og harðbotna björgunarbátar. Viðbúnaður björgunarsveita á Suðurnesjum var einnig nokkur en þær voru tilbúnar til aðgerða ef skipið ræki upp í fjöru.
Grímsnes GK er 180 brúttólesta og 33 metra stálskip. Það strandaði á sandrifi 3,2 sjómílur norðaustur af Skarðsfjöruvita á Meðallandssandi í gærmorgun en komst aftur á flot. Sjókælir bátsins skaddaðist hins vegar. Varðskip tók bátinn í tog en skipverjum tókst í gær að gangsetja aðalvél Grímsness GK og sigla bátnum á hægri ferð fyrir eigin vélarafli. Þá var ákveðið að losa dráttartaugina.
Grímsnes kom til Eyja um miðnættið og virðist hafa haldið áfram ferð sinni til Reykjaness.