Borgarráð samþykkti í dag tillögu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarstjóra um að undirbúin verði sóknaráætlun fyrir Reykjavík vegna þeirra verkefna sem borgin stendur frammi fyrir í ljósi breytinga í efnahagsumhverfinu.
Til undirbúnings verður skipaður starfshópur sem hefur það hlutverk að kortleggja tækifæri borgarinnar til nýsköpunar og vaxtar á næstu árum og skal hann vinna á þeim grundvelli hugmyndir um það hvernig höfuðborgin hyggst mæta nýjum áskorunum.
Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu borgarstjóra segir, að markmið með sóknaráætlun verði að móta stefnu til framtíðar um hvernig best verði tryggt að Reykjavík verði ávallt í forystu hvað varðar lífsgæði fyrir borgarbúa og verði fyrsti valkostur fólks og fyrirtækja.
Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri Menningar- og ferðamálasviðs, mun hafa umsjón með verkefninu. Starfshópurinn verður skipaður fulltrúum Reykjavíkurborgar, fyrirtækja, samtaka atvinnulífs, háskóla og annarra og starfa í nánu samstarfi við aðgerðarhóp borgarráðs. Tillögum starfshópsins á að skila til borgarráðs eigi síðar en 1. febrúar 2009, sem í framhaldinu mun undirbúa stefnumótun.