Varasjóður Skeiða- og Gnúpverjahrepps sem geymdur var í Landsbankanum rýrnaði um tæpan þriðjung vegna bankahrunsins. Í Glugganum segir að sveitarfélagið hafi tapað 27 milljónum af varasjóði sínum í Landsbankanum.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur áskilið sér rétt til þess að skoða réttarstöðu sína í samstarfi við önnur sveitarfélög sem eru í svipaðri stöðu, eftir því sem fram kemur í bókun sveitarstjórnar.
Þar segir að eign sveitarfélagsins hafi numið rúmum 86 milljónum króna, en aðeins 59 milljónir hafi verið greiddar til baka inn á reikning sveitarfélagsins og er sveitarstjórn ekki tilbúin að fallast á uppgjör bankans.
Jafnframt er bent á að útgreiðsluhlutfall Landsbankans sé mun lægra en hjá hinum bönkunum og telur sveitarstjórn rétt að stjórnendur útibús Landsbankans á Selfossi verði boðaðir á fund þar sem þeir geri grein fyrir því hvernig bankinn hyggst halda á málum gagnvart sveitarfélaginu.
Ekki verður annað skilið á bókun sveitarstjórnar en viðskipti hreppsins verði færð ef niðurstaðan verður ekki viðunandi.
Í bókun sveitarstjórnar segir að þrátt fyrir þessa meðferð á sparifé íbúa muni þjónusta við íbúa ekki minnka og álögur og þjónustugjöld ekki hækka. Hins vegar sé ljóst að framkvæmdafé á næstu árum muni minnka sem nemi tapinu. Staða sveitarfélagsins sé góð ef frá sé talið „þetta rán“ eins og það er orðað í bókun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps.