Poul Thomsen, aðstoðarframkvæmdastjóri Evrópuskrifstofu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF), sagði á símaráðstefnu í dag að ekki væri vitað að svo stöddu um heildarlántökukostnað Íslands af láni sjóðsins og viðbótarlánum sem nokkur ríki hafa samþykkt að veita landinu.
Thomsen sagði að skilmálar viðbótarlánanna yrðu ræddir við fulltrúa ríkisstjórnar Íslands á næstu vikum. Vextir láns IMF yrðu breytilegir, tengdir markaðsvöxtum, og gert væri ráð fyrir því núna að þeir yrðu rúm 4%. Hann bætti við að vextirnir yrðu síðan endurskoðaðir á tveggja vikna fresti.
Thomsen kvaðst vera vongóður um að aðstoð IMF og viðbótarlánin dygðu til að styrkja krónuna og hún næði stöðugleika á næstu mánuðum. Hann kvaðst gera ráð fyrir því að gengi krónunnar yrði nálægt núverandi gengi hennar hjá Seðlabanka Íslands. Samkvæmt gengisskrá bankans núna kostar evran 176 krónur. Hann spáði því að gengi krónunnar myndi síðan hækka á næsta ári.
Thomsen sagði nauðsynlegt að halda stýrivöxtum háum til að afstýra miklum fjármagnsflótta úr landinu. Hann kvaðst þó gera ráð fyrir því að stýrivextirnir myndu lækka smám saman á næsta ári.
Thomsen sagði að til að tryggja stöðugleika krónunnar þyrfti einnig að takmarka fjárstreymið úr landinu, en vildi ekki greina frá því í hverju það fælist. Hann bætti við að ef ekki yrði komið í veg fyrir frekara gengishrun krónunnar væri hætta á hrinu vanskila og gjaldþrota hjá fyrirtækjum og einstaklingum, með mjög alvarlegum afleiðingum fyrir efnahag landsins.
Í máli Thomsens kom einnig fram að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir því að landsframleiðslan á Íslandi minnki um allt að 10% á næsta ári. Hún gæti jafnvel haldið áfram að minnka árið 2010. Thomsen viðurkenndi að óvissan um framvinduna í íslenskum efnahagsmálum væri mjög milkil. Hann kvaðst þó vera vongóður um að íslenska hagkerfið rétti úr kútnum vegna þess að það væri mjög sveigjanlegt.
Thomsen sagði að þessum mikla efnahagssamdrætti fylgdi fjárlagahalli og það kallaði á sparnaðaraðgerðir eða skattahækkanir árið 2010. Það væri algerlega undir íslenskum stjórnvöldum komið hvernig staðið yrði að því að minnka fjárlagahallann. Áætlun um það ætti að liggja fyrir um mitt næsta ár.