Vilja alhliða niðurfærslu skulda

mbl.is/Kristinn

Viðskiptaráð telur nauðsynlegt að að óháðir aðilar, helst hópur erlendra sérfræðinga, rannsaki aðdraganda kreppunnar og að í þeirri rannsókn verði engir þættir atburðarrásarinnar undanskildir. Þær hugmyndir að stjórnmálamenn leiði þessar rannsóknir telur Viðskiptaráð mjög óheppilegar.

Viðskiptaráð segir að framundan sé tímabil efnahagslegrar endurreisnar í kjölfar hruns íslenska fjármálakerfisins. Verulega hafi hægst á hjólum atvinnulífs vegna gjaldeyriskreppu, veikingar krónunnar, hnökra í erlendri greiðslumiðlun, skerts aðgengis að fjármagni og almennrar óvissu sem ríki um rekstrargrundvöll fyrirtækja. Til að draga megi sem mest úr þeim erfiðleikum sem blasa við íslenskum fyrirtækjum og heimilum hefur Viðskiptaráð tekið saman sjö atriði sem skipta sérstaklega miklu máli fyrir framtíð íslensks efnahaglífs og eru til þess fallin að halda hjólum atvinnulífsins gangandi.

Alhliða niðurfærsla skulda fyrirtækja

Viðskiptaráð telur vert að skoða möguleikann á því að beita alhliða niðurfærslu skulda hjá fyrirtækjum, fremur en að meta hvert tilfelli fyrir sig. Í því felst að mati Viðskiptaráðs, mikill vinnusparnaður og einföldun við ákvarðanatöku, bæði hjá fyrirtækjum og innan nýja bankakerfisins. Slík aðgerð mundi einnig að mati Viðskiptaráðs auka svigrúm þeirra fyrirtækja sem eru minna skuldsett til að yfirtaka önnur verr stödd fyrirtæki. Viðskiptaráð telur einnig vert að kanna möguleika á að skuldum fyrirtækja við bankakerfið verði breytt í hlutafé í stað þess að afskrifa þær. Þá leggur Viðskiptaráð til að stofnaður verði sérstakur fjárfestingarsjóður í þágu atvinnulífsins sem hefði það hlutverk að endurfjármagna fyrirtæki sem búa við góðan rekstrargrundvöll en eru fjárvana.

Skattahækkanir síðasta úrræðið

Viðskiptaráð telur að aukin skattheimta ætti að vera síðasta úrræði stjórnvalda, enda sé ekki bætandi álögum á fjölskyldur og fyrirtæki í núverandi árferði. Ráðið telur að ríkið ætti frekar að hagræða í rekstri sínum.

Breyta ætti gjaldþrotalögum

Þá segir Viðskiptaráð þörf á aðlögun og skýringu á gjaldþrotalöggjöfinni í því umróti sem nú ríkir í rekstrarumhverfi fyrirtækja. Viðskiptaráð væntir þess að dómstólar muni veigra sér við því að úrskurða um bóta- og refsiábyrgð stjórnenda, komi til dómsmála vegna ráðstafana eða gjörða stjórnenda í aðdraganda gjaldþrots. Ráðið byggir þetta álit á því að rekstraraðstæður fyrirtækja nú séu fordæmalausar. Viðskiptaráð mælist til þess að ríkisstjórnin skoði hugsanlegar breytingar á gjaldþrotalögum í þessa átt á allra næstu dögum eða vikum.

Áhersluatriði Viðskiptaráðs:

1. Gjaldeyrismál og endurskoðun peningamálastefnu
Nú bendir flest til þess að aðkoma IMF verði að veruleika og í kjölfarið ætti því að gefast gott færi á að greiða úr stöðunni á gjaldeyrismarkaði. Viðskiptaráð leggur til að krónan verði sett á flot eins fljótt og auðið er, en í því sambandi er forgangsmál að aðilar vinnumarkaðar og hið opinbera vinni gegn því að hugsanleg veiking krónunnar leiði út í verðlag. Með þeim hætti má tryggja að leiðrétting raungengis komi til í gegnum styrkingu nafngengis. Einnig er brýnt að vextir lækki aftur um leið og færi gefst.

2. Aðgerðir til stuðnings fyrirtækjum
Sökum efnahagsþrenginga munu fjölmörg fyrirtæki lenda í rekstrarerfiðleikum á komandi misserum og því telur Viðskiptaráð mikilvægt að vel takist til við úrlausn slíkra mála gagnvart bankakerfinu. Í því sambandi er ýmislegt sem kemur til greina, t.d. alhliða niðurfærsla skulda og breyting skulda í hlutafé, svo fátt eitt sé nefnt. Viðskiptaráð leggur einnig til að stofnaður verði endurreisnarsjóður, sem hefði það hlutverk að tryggja áframhaldandi rekstur fyrirtækja í tímabundnum erfiðleikum.

3. Mótun og kynning skýrrar framtíðarstefnu
Nú þegar viljayfirlýsing stjórnvalda og IMF liggur fyrir er mikilvægt að stjórnvöld marki skýra sýn til framtíðar. Einnig er vert að minnast á mikilvægi almenns upplýsingaflæðis af hálfu hins opinbera, sem fram að þessu hefur verið verulega ábótavant. Líklegt er að koma hefði mátt í veg fyrir ýmis vandamál með betra streymi upplýsinga.

4. Aðlögun og skýring á gjaldþrotalöggjöf
Viðskiptaráð mælist til þess að ríkisstjórnin skoði á næstu dögum og vikum hvort gera eigi breytingar á gjaldþrotalöggjöf til að tryggt sé að dómstólar veigri sér við að úrskurða um bóta- og refsiábyrgð gagnvart stjórnendum komi til dómsmála af því tagi við núverandi aðstæður. Ljóst er að íslenskt atvinnulíf glímir við fordæmalausar aðstæður og því afar erfitt fyrir dómstóla að meta varanleika greiðsluörðugleika fyrirtækis annars vegar og hvort aðgerðir stjórnenda þess hafi verið réttmætar hins vegar.

5. Efling frumkvöðlastarfs og stuðningur við nýsköpun
Frumkvöðla- og nýsköpunarstarfsemi kemur til með að gegna lykilhlutverki í þeirri uppbyggingu sem framundan er. Af þeim sökum er mikilvægt að hlúð verði að slíku starfi og því sköpuð hagfelld ytri skilyrði.

6. Fjárveitingar til menntamála má ekki skerða
Það er afar mikilvægt að þeir einstaklingar sem fara af atvinnumarkaðinum hafi greiðan aðgang að námi óháð aldri og búsetu. Þetta á við um nám á öllum stigum. Nú sem aldrei fyrr þarf að setja menntun í forgang.

7. Óháðir aðilar rannsaki aðdraganda kreppunnar
Eðlilegt er að farið verði í saumana á þeirri atburðarás sem leiddi til núverandi hremminga. Ef framkvæma á slíka rannsókn er nauðsynlegt er að að óháðir aðilar, helst hópur erlendra sérfræðinga, leiði slíka rannsókn og að í henni verði engir þættir atburðarrásarinnar undanskildir. Þær hugmyndir að stjórnmálamenn leiði þessar rannsóknir telur Viðskiptaráð mjög óheppilegar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert