Helga Sigrún Harðardóttir, nýr þingmaður Framsóknarflokksins, spurði heilbrigðisráðherra á Alþingi í dag hvaða erindi þekktur auðmaður hafi átt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja á dögunum með starfsmönnum heilbrigðisráðuneytisins. Sagði Helga Sigrún að umræddur maður muni hafa sýnt skurðstofum, sem til stendur að loka, sérstakan áhuga.
Spurði Helga Sigrún hvaða hlutverki auðmönnum væri ætlað í endurskipulagningu heilbrigðiskerfisins.
Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, sagðist ekki geta svarað fyrir einstakar heimsóknir fólks á sjúkrahús. Þá sagði hann auðmönnum ekki ætlað sérstakt hlutverk í heilbrigðiskerfinu að öðru leyti en því að þeir kynnu að þurfa á þjónustu þess að halda eins og aðrir.