BSRB vill vaxtalækkun og endurskoðun á vísitölugrunni

 Stjórn BSRB krefst þess að raunvextir verði lækkaðir þegar í stað í ályktun sem samtökin hafa sent frá sér. „Himinháir vextir eru að keyra skuldsett heimili og fyrirtæki á kaf og er það fullkomið ábyrgðarleysi af hálfu stjórnvalda að lækka ekki vexti og draga þar með úr óbærilegri skuldabyrði.

Þá þarf einnig að huga að róttækum ráðstöfunum til að aðstoða fólk með vísitölubundin lán ef verðbólgan rýkur upp tímabundið eins og hætta er á að gerist á komandi vikum. Þá er nauðsynlegt að endurskoða gildandi vísitöluútreikninga. Þeir endurspegla liðna tíð en ekki neyslumynstrið eins og það er nú," að því er segir í ályktun stjórnar BSRB.

BSRB mótmælir aðför að velferðarþjónustunni

Stjórn BSRB mótmælir harðlega ákvörðun ríkisstjórnarinnar um flatan 10% niðurskurð í velferðarkerfi landsmanna. „Þetta hefði í för með sér fjöldauppsagnir og verulega skerðingu á þjónustu og gengur þvert á það sem nú er brýnast að gera: stórefla velferðarþjónustuna og styrkja öryggisnet fjölskyldnanna.

Á tímum samdráttar er fráleitt að grípa til ráðstafana sem auka á atvinnuleysi í landinu. BSRB hefur á undanförnum misserum margoft bent á hve þröngur stakkur mörgum samfélagsstofnunum er sniðinn og að það hamli því að þær geti sinnt þjónustuhlutverki sínu. Niðurskurður á framlögum til þessara stofnana nú er glapræði og hvetur BSRB alla landsmenn til að mótmæla þessum einhliða ráðstöfunum," að því er segir í ályktun stjórnar BSRB.
 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert