Mörður Árnason, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, lýsir yfir efasemdum um stjórnarsamstarfið. Mörður segir þessa skoðun útbreidda innan flokksins, enda sé hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins gjaldþrota.
Mörður viðrar þessa skoðun sína í pistli á vefsíðunni smugan.is.
Hann skýtur föstum skotum að forystumönnum Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.
„Þess vegna veit maður ekki hvað VG er eiginlega að hugsa þessa dagana. Í staðinn fyrir að snúa sér í átt til Samfylkingarinnar - og búast við hinu sama af okkur - hafa Steingrímur og félagar í fararbroddi vinstrigrænna dundað á hverjum degi við að smíða sér sem hvassasta sérstöðu, sem að lokum tognar svo á að hún tengist helst hægriöfgaöflunum heimastjórnarmegin í Sjálfstæðisflokki.“
Vill þingmaðurinn fyrrverandi einnig meina að frjálshyggjuhugmyndir Sjálfstæðisflokksins hafi beðið skipbrot.
„Það er kunnara en frá þurfi að segja að innan Samfylkingarinnar eru uppi miklar efasemdir um stjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn. Í fyrsta lagi vegna þess að hugmyndafræði þess flokks undanfarin ár og áratugi er gjaldþrota - hinn nýi laissez-faire-kapítalismi Hannesar Hólmsteins og Eimreiðarhópsins er hér með afsannaður á Íslandi og um heiminn,“ segir Mörður og heldur áfram.
„Í öðru lagi vegna þess að samstarf við Sjálfstæðisflokkinn virðist ekki geta farið fram öðruvísi en í hjúpi leyndar - þar sem undansláttur, feluleikir og spunatilraunir eru orðin markmið í sjálfu sér langt umfram allan eðlilegan trúnað og varúð. Leyndarhyggjan er hluti af sjálfum kúltúr Sjálfstæðisflokksins, og á sér rætur bæði í embættisaðal og forstjóraskrifstofur.
Í þriðja lagi vegna þess að flokknum er illa treystandi þegar gefur á: Forystan hefur verið í fumi og fáti frá fyrsta degi, og ekki bætir úr að aftur og aftur birtist á framsviðinu uppvakningur sem telur sig enn hafa völdin í konungsríkinu - og virðist hafa í fullu tré við þá hvolpa tvo sem þar eiga að heita við stjórnvöl. Menn hafa í stuttu máli efasemdir um að Sjálfstæðisflokkurinn sé stjórntækur - eða réttara sagt stjórnhæfur - eftir viðburði síðustu vikna.“
Mörður segir atburðarás síðustu vikna hafa tekið umboðið af ríkisstjórninni.
„Almenningur hefur misst á henni nauðsynlegt traust - og raunar á stjórnvöldum samanlögðum og stjórnarandstöðunni líka. Yfir stendur stjórnmálakreppa, sem hvenær sem er getur breyst í stjórnarkreppu. Sú staða er uppi þangað til nýtt umboð er fyrir hendi - hjá nýrri ríkisstjórn hverjir sem hana mynda. Slíkt umboð getur fengist með kosningum, sem við teljum mörg að hljóti að vera á dagskrá á næsta ári, eða með sannfærandi stefnuáætlun til skemmri tíma þar sem einnig væri samið um kjördag.“
Nálgast má allan pistil Marðar hér.