Össur Skarphéðinsson, ráðherra ferðamála, greindi frá mörgum nýjum verkefnum og áformum til eflingar ferðaþjónustu í opnunarræðu ferðamálaþings í gær. Hann sagði niðurstöður ferðaþjónustureikninga Hagstofunnar, sem nýlega voru birtir í fyrsta sinn, styðja vel staðhæfingar um að hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu sé mun meiri en fyrri hagskýrslur hafi sýnt.
Össur benti m.a. á fjölgun ferðamanna til Íslands um 60% frá árinu 2000 til 2007 og fjölgun gistinótta erlendra ferðamanna um 51% á sama tíma. Heildarkaup á ferðaþjónustu innanlands árið 2006 námu tæplega 135 milljörðum króna, sem svarar til 11,5% af landsframleiðslu. Hann sagði fróðlegt að bera saman framlag ferðþjónustunnar annars vegar og ál- og stóriðju hins vegar til landsframleiðslunnar.
„Á tímabilinu 2000-2006 hefur framlag ferðaþjónustunnar til landsframleiðslu verið tvöfalt meira en áliðnaðarins,“ sagði Össur. Hann sagði Íslendinga nú verða að reiða sig á sjávarútveg, málmiðnað og ferðaþjónustu til að afla gjaldeyris á næstunni. Ferðaþjónustan er drjúg í gjaldeyrisöflun. „Á síðasta ári, 2007, aflaði hún í beinum gjaldeyri 56 milljarða. Var fast að því hálfdrættingur við okkar elstu stórgrein, sjávarútveginn. Ferðaþjónustan hefur fram á allra síðustu ár aflað meiri gjaldeyris en áliðnaðurinn, alveg þar til á allra síðustu misserum þegar álið hefur sigið fram úr eftir að Fjarðaál kom til sögunnar.“
Áform eru um að stórefla markaðsstarf erlendis og uppbyggingu innviða ferðaþjónustunnar. Í því skyni kvaðst Össur hafa unnið að náinni samvinnu milli útflutningsráðs, ferðamálaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins. M.a. stendur vilji til þess að sérhvert sendiráð Íslands verði í raun markaðsskrifstofa.
Í fjárlögum sem lögð voru fram í haust og á fjáraukalögum var fjármagn til markaðssóknar erlendis fimmfaldað í 150 milljónir. Óskum um fjármagn til þróunarverkefna í ferðaþjónustu á landsbyggðinni var mætt með því að veita 100 milljónir króna af byggðafé til þeirra verkefna á næsta ári. Um er að ræða m.a. þróunarstyrki til menningartengdrar ferðaþjónustu, verkefni til aukinnar arðsemi og matargerðar í héraði.
Össur sagðist hafa mestan áhuga á að stórauka rannsóknir í ferðaþjónustu. Sett verður á fót rannsóknar- og þróunarsetur í ferðamálum í samvinnu við Háskólann á Hólum, að fengnu samþykki Alþingis. Einnig hefur Össur, að ósk ferðaþjónustunnar, breytt reglum tækniþróunarsjóðs þannig að hann geti komið að ferðatengdum verkefnum. Þá hefur hann ákveðið að verja fé til öndvegisseturs á sviði ferðaþjónustu á næsta ári. Á næsta ári fara 100 milljónir af byggðaáætlun til að styrkja innviði ferðamannastaða og 80 milljónum verður varið til markaðsmála innanlands.