Norðmaðurinn Björn Richard Johansen vann að aðgerðaáætlun fyrir forsætisráðherra um miðjan október. Sýna verður fjölmiðlum að ríkisstjórnin er stolt og er með frumkvæðið, segir í plagginu sem Ríkisútvarpið hefur undir höndum. Hinsvegar verði að vernda forstjóra Fjármálaeftirlitsins fyrir fjölmiðlum.
Fjallað var um plaggið í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld. Johansen var ráðinn til starfa fyrir forsætisráðuneytið í upphafi bankahrunsins en hann hefur sérhæft sig í upplýsingastjórnun á erfiðum tímum
Kastljós sagði að áætlunin bæri þess vitni að Johansen hafi hernaðarlegan bakgrunn. Blaðið sýni fjölmiðlaáætlun dagsins. Þar komi fram að Geir H. Haarde forsætisráðherra eigi að leggja áherslu á góðan anda í ríkisstjórninni, að erlendir fjölmiðlar fái engin sjónvarpsviðtöl þennan dag og þá ljósmyndaáætlun nefnd. Finna verði svonefnt Kodak-augnablik dagsins. En forsætisráðuneytið hefur sérstakan ljósmyndara, Halldór Kolbeins, á sínum snærum á helstu blaðamannafundum.
Einnig kemur fram að sýna verði fjölmiðlum um heim allan að ríkisstjórnin hafi frumkvæðið og sé stolt í broddi fylkingar. Forsætisráðherrann sé sterkur, ráðherra bankamála sé sterkur sem og forstjóri Fjármálaeftirlitsins en hins vegar eigi að vernda hann fyrir fjölmiðlum. Johansen gegndi áður starfi upplýsingafulltrúa Glitnis í Noregi.