Hissa á ummælunum

Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir þau ummæli Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra og Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra að efna beri til kosninga á næsta ári koma á óvart. Hún taki því undir viðbrögð Geirs H. Haarde forsætisráðherra sem sé einnig hissa á ummælunum.

„Maður hefur talið að þessi ríkisstjórn væri harðákveðinn í að klára þessi erfiðu mál. Ég hef trú á að það verði svo. Að koma okkur út úr þeim brimskafli sem bankakreppan er,“ segir Arnbjörg.

Hún fagnar þeirri yfirlýsingu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra að ekki komi til greina að efna beri til kosninga og telur þá afdráttarlausu yfirlýsingu til vitnis um staðfestu formanns Samfylkingarinnar.

Jón Gunnarsson, flokksbróðir Arnbjargar, kvaðst í morgun vilja sjá mannabreytingar í ríkisstjórninni og í opinberum stofnunum.

Aðspurð um þetta sjónarmið kveðst Arnbjörg ósammála, enda beri að tryggja stöðugleika við þessar aðstæður.

„Ég reikna ekki með því að það sé neitt í pípunum og sé enga ástæðu til þess. Stöðugleikinn skiptir mestu máli.“

Þá lét Helgi Pétursson, formaður stjórnar Samfylkingarinnar í Garðabæ, þau orð falla að skipta bæri um stjórn í Seðlabankanum.

Aðspurð um afstöðu sína til þessara ummæla segir Arnbjörg að Helga sé frjálst að hafa þessa skoðun.

„Hverjum og einum er frjálst að hafa skoðun á því. Ég held að það sem skipti öllu máli sé að það ríki stöðugleiki í kringum helstu stofnanir landsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka