Ekki virðast allir sammála um það hvort hægt sé að skera niður í heilbrigðisþjónustunni um 10% á næsta ári án þess að það feli sjálfkrafa í sér skerðingu á þjónustu við sjúklinga og uppsagnir starfsfólks. Þannig töldu sumir viðmælendur Morgunblaðsins vel hægt að hagræða enn frekar í heilbrigðiskerfinu án skerðingar á þjónustu eða uppsagna en aðrir töldu ljóst að svo mikill niðurskurður myndi sjálfkrafa ógna lögbundnu hlutverki heilbrigðisstofnana.
Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu mun ráðherra ekki ganga gegn lögum um hlutverk heilbrigðisstofnana í endanlegum sparnaðartillögum sínum þótt verið sé að leggja til sparnað og aukna hagræðingu í geiranum. Hins vegar sé ekki ólíklegt að þegar til lengri tíma er litið megi eiga von á einhverjum uppstokkunum í heilbrigðiskerfinu, s.s. sameiningu stofnana og þróun í þá átt að ekki sé verið að vinna sama verkið á fleiri en einum stað.
Samkvæmt heimildum blaðamanns er nú verið að skoða þann möguleika hjá bæði Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Heilbrigðisstofnun Suðurlands að skera niður sérfræðiþjónustu á borð við skurð- og fæðingarlækningar til þess að verða við óskum ráðuneytisins um niðurskurð. Að öllu óbreyttu má reikna með því að sú þjónusta færist þá til Landspítalans, sem einnig er gert að spara, þannig að þeirri spurningu er ósvarað hver hinn raunverulegi sparnaður af slíkri ráðstöfun yrði í reynd og hvort sparnaðurinn vegi upp þá óhagræðingu sem fylgi því að sjúklingar þurfi að fara um lengri veg til þess að geta fengið þjónustuna sem áður var veitt í heimabyggð.