Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði á Alþingi í dag að margar vistarverur væru í flokknum og fólk geti rætt skoðanir sínar innan flokksins og einnig við samstarfsflokkinn án þess að menn stökkvi unnvörpum fyrir borð, ólíkt því sem gerðist með aðra flokka.
Ingibjörg var að svara fyrirspurn frá Valgerði Sverrisdóttur, formanni Framsóknarflokksins, sem sagði að framkoma ríkisstjórnarinnar, einkum þó Samfylkingarinnar, gagnvart þjóðinni væri langt frá því að vera boðleg. Sagði Valgerður bæði þingmenn og ráðherra Samfylkingarinnar ástunda gaspur um að flokkurinn vilji þetta og hitt, þar á meðal kosningar í vor. Þetta væri alger nýjung í íslenskum stjórnmálum.
Lifi byltingin, sagði Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra glottandi eftir ríkisstjórnarfund í morgun þar sem hann hljóp niður stigann í ráðherrabústaðnum til að ná í fyrirspurnartíma á Alþingi. Björgvin G. Sigurðsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir hafa lýst því yfir að þau vilji að boðað verði til Alþingiskosninga í vor. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði ekki tímabært að ræða kosningar, þar sem ríkisstjórnin væri í miðjum björgunarleiðangri.