Vonandi skapar lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þann trúverðugleika sem landsmenn þurfa inn á alþjóðagjaldeyrismarkaðina. Þetta segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands. Hann segir samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn mjög mikilvægt skref í þá átt og hann vonist til að með því fáist sú viðspyrna sem þurfi til að styrkja gengi krónunnar og ná gengisvísitölunni niður. „Þetta snýst fyrst og fremst núna um að auka trúverðugleika þeirra aðgerða sem er verið að grípa til.“
Gylfi segir að það sé ekkert launungarmál að Seðlabankinn hafi ekki staðið sína vakt. „Það verður að horfast í augu við það að Seðlabankinn er ekki mjög trúverðugur um þessar mundir.“ Því þurfi að breyta.
Nú þurfi að svara hversu trúverðugt ríkið ætli að vera. Trúverðugleikinn næðist með aðildarviðræðum við Evrópusambandið. „Þá gæfum við út með hvaða þjóðum við ætlum að teljast í framtíðinni. Við ætlum út úr þeirri stöðu að teljast til nýmarkaðsríkja; ríkja sem búa við veikan gjaldmiðil og háa vexti.“