Rétt að skoða aðkomu útlendinga að bönkunum

Björgvin G. Sigurðsson.
Björgvin G. Sigurðsson.

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, sagði á Alþingi í dag að hann teldi rétt að skoða af fullri alvöru aðkomu erlendra aðila að bönkunum en ekkert hefði verið ákveðið í þá veru. Þá sagðist hann telja  einboðið, að standa þurfi allt öðruvísi að einkavæðingu nýju bankanna en gert var síðast.

Þá sagði Björgvin, að skoða verði samkeppnissjónarmið þegar fjallað væri um hvort bankarnir yrðu sameinaðir að einhverjum hætti. Tryggja verði virka samkeppni á þessum markaði.  

Björgvin sagði, að starfsfólk Fjármálaeftirlitsins hefði unnið þrekvirki við að tryggja að bankakerfið virkaði í kjölfar falls bankanna. Sagði hann stofnunina hafa orðið fyrir ómaklegum árásum að undanförnu.

Verið var að ræða utan dagskrár um skilin milli gömlu og nýju bankanna að ósk Álfheiðar Ingadóttur, þingmanns VG. Hún sagði að ekki hefði tekist nógu vel að skilja á milli fyrrverandi eigenda og stjórnenda bankanna annarsvegar og viðskiptavina nýju bankanna hins vegar. Ríkja yrði gagnsæi í störfum bankanna og útrýma kynjamisrétti.

Guðfinna Bjarnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að á fundi utanríkismálanefndar þingsins í morgun hefði verið rætt um yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda vegna fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Á fundinum hefði komið fram, að bankamálin væru komin í ágætan farveg.

Sagði Guðfinna, að sænskur sérfræðingur, sem leiddi aðgerðir vegna bankakreppunnar í Svíþjóð á sínum tíma, hafi verið fenginn til að leiða starf sérstakrar nefndir, sem ætlað er að samræma stefnu og aðgerðir stjórnvalda í því uppbyggingarstarfi, sem framundan er. 

Erlend endurskoðunarskrifstofa  er að meta eignir bankanna, Þá hefur finnskur embættismaður, sem gegndi starfi fjármálaeftirlits Finnlands á árum áður er að endurskoða löggjöf um fjármálastarfsemi og framkvæmd bankaeftirlits hér á landi.

Fram kom hjá nokkrum þingmönnum, þar á meðal Siv Friðleifsdóttur, þingmanni Framsóknarflokks, að það skapaði ákveðið vantraust að nánast allir sömu lykilstjórnendurnir í bönkunum og voru áður en þeir féllu. Siv sagði mikilvægt að ráðast sem fyrst í endurskipulagningu bankakerfisins með það að markmiði að koma bönkunum úr ríkiseigu. Við sölu á bönkunum yrði að gæta þess að söluferlið verði gagnsætt og einnig komi vel til greina að hluti bankakerfisins sé í erlendri eigu. Einnig verði að setja mjög skýrar reglur um hvernig farið verði með afskriftir skulda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert