Meðlimir í sérsveit ríkislögreglustjóra, sem nú eru 41 talsins, fá ríflega 14% hærri laun en aðrir lögreglumenn. Á síðasta ári höfðu þeir að meðaltali tæpar 618.000 krónur í mánaðarlaun, en aðrir lögreglumenn um 540.000 krónur. Þetta kom fram í svari Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra á Alþingi í gær, við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur, þingmanns Vinstri-grænna.
Þá kom fram að rekstarkostnaður sérsveitarinnar jókst um 62,5% í krónum talið frá 2005 til 2007. Var um 256 milljónir króna árið 2005 en 415 milljónir árið 2007. Af svarinu mátti einnig ráða að langflest verkefni sérsveitarmanna eru almenn lögregluverkefni og að um eða undir 25% af vinnutíma þeirra fer í þjálfun.
Aðspurð segir Kolbrún það hafa vakið athygli sína að þeir sem beri byssurnar séu hærra metnir en aðrir í launum. Hún tekur heldur ekki alfarið undir að áhættusamari störf þeirra réttlæti þennan launamun. Kolbrún segist ekki sjá skýran áhættumun á því t.d. að gæta öryggis stjórnmálamanna á krepputímum eða ganga um götur miðborgarinnar að næturlagi um helgar.
Þá segir hún óæskilegt að gjá myndist á milli mismunandi deilda innan lögreglunnar, og tortryggni þar með, vegna elítumyndunar. Fullkominn trúnað þurfi milli ríkislögreglustjóra og almennra embætta og lögreglan að starfa sem ein heild.