Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, segir að andrúmsloftið hafi ekki verið kaldara en venjulega. Það ríki ekkert traust eftir að ljóst varð að forystumenn ríkisstjórnarinnar hafi verið upplýstir um aðdraganda bankahrunsins í febrúar en haldið því leyndu.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, segist eiga von á því að ráðherrar og þingmenn Samfylkingar sem vilji kosningar styðji tillöguna enda séu þingmenn og ráðherrar stjórnarflokkanna komnir í hár saman út af kosningum, en þeir hafi með því nánast lýst vantrausti á stjórnina.
Valgerður Sverrisdóttir, formaður Framsóknarflokksins, segir að á sama tíma og þjóðin búi við erfiðar aðstæður og erfið verkefni bíði noti ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna helst orku sína í að deila innbyrðis. Meðal annars þess vegna sé ríkisstjórninni ekki treystandi til að sitja áfram.
Formenn Frjálslynda flokksins og Framsóknarflokksins vildu ekki tjá sig um drög ríkisstjórnarflokkkanna af eftirlaunafrumvarpi þar sem þau hefðu bara verið kynnt munnlega. Steingrímur J Sigfússon sagði þó að lagafrumvarp VG gengi mun lengra og í aðra átt. Hugmyndir stjórnarflokkanna væru ekki neitt sem VG myndi leggja nafn sitt við.