Hvergi tíðkast meðal vestrænna þjóða að stjórnmálamenn séu valdir seðlabankastjórar. Þvert á móti þætti það hin mesta fásinna að skipa fyrrverandi forsætisráðherra seðlabankastjóra. Þetta er meðal þess sem dr. Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við London School of Economics, segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Mikilvægt sé að seðlabankastjórinn sé hlutlaus í stjórnmálum og varkár í orðum. Hann þurfi að njóta trausts almennings og stjórnvalda, en sé hann rúinn því trausti verði að skipta um stjórn bankans. Jón segir það ekki hlutverk seðlabankastjóra að flytja pólitískar varnarræður. Það skapi ekki traust og sé langt fyrir neðan virðingu Seðlabankans.