Vill rífa en má það ekki

Þegar harðnar á dalnum og kólnar í veðri er meiri hætta á að menn leiti skjóls í auðum húsum sem drabbast hafa niður. Þetta er skoðun Jóns Viðars Matthíassonar, slökkviliðsstjóra höfuðborgarsvæðisins, sem óttast að brunagildrurnar séu enn margar þótt átak embættis hans og borgaryfirvalda frá því í vor um að fækka þeim hafi skilað góðum árangri, að hans sögn.

Átakið hófst í kjölfar eldsvoða á Hverfisgötu snemma árs. „Þá fórum við í eld og vorum mjög nálægt því að missa mann, útigangsmann. Við höfum lent í slíku áður í húsnæði sem nú er búið að rífa. Þetta er ekki síður hættulegt fyrir mína starfsmenn. Þeir þurfa að fara inn í hús á mismunandi byggingarstigi eða í hús þar sem handrið hefur kannski verið rifið niður og göt eru á gólfi,“ segir Jón Viðar.

Um hús í miðborginni gildir sú vinnuregla Reykjavíkurborgar að ekki megi veita leyfi til niðurrifs fyrr en eigandi hafi sýnt hvað koma eigi í staðinn, að sögn Helgu Bjarkar Laxdal, yfirlögfræðings hjá skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkurborgar. „Húsið sem brann á Baldursgötunni um daginn hefði hins vegar mátt rífa fyrir löngu þar sem það er utan miðborgarsvæðis,“ segir Helga.

Efnahagskreppan kann þó að koma í veg fyrir að hægt verði að fjármagna byggingu húss sem koma á í stað húss sem á að rífa.

„Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að skipulagsráð og borgarráð endurskoði vinnureglurnar um niðurrif og uppbyggingu í miðborginni ef nauðsyn ber til. En í því ástandi sem hefur ríkt var full ástæða til þess að setja mönnum skorður,“ bendir Helga á.

Fasteignafélagið Festar keypti fyrir einu og hálfu ári á svokölluðum Hljómalindarreit nokkrar lóðir af skipulagssjóði og hús til niðurrifs vegna uppbyggingar á reitnum þar sem gert er ráð fyrir hóteli, veitingastöðum og verslunum. Stjórnarformaður Festa, Benedikt Sigurðsson, segir þau húsanna sem ekki eru í notkun, Hverfisgötu 32 og 34 og Klapparstíg 30, ónýt og hefur nokkrum sinnum beðið um að fá að rífa þau þótt hann hafi enn ekki fengið byggingarleyfi.

Verði seinkun á útgáfu byggingarleyfis vill hann samt sem áður fá að rífa fyrrnefnd hús. Hann segir það ekki svara kostnaði að gera þau upp þar sem þau séu ónýt. „Mér finnst snyrtilegra að ganga frá svæðinu, sem hægt er með litlum tilkostnaði. Ég tel svona hús stórhættuleg. Þótt þau séu lokuð er hægt að komast inn í þau.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka