Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sagði á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag að áfallastjórnuninni eftir fall bankanna væri lokið. Þáttaskil hefðu orðið þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og evrópskar vinaþjóðir samþykktu lánafyrirgreiðslu til Íslands.
„Nú þurfum við að nýta svigrúmið sem gefst til að komast hratt í gegnum þessa kreppu," sagði Ingibjörg Sólrún.
Hún sagði einnig að fólk, sem mætti á útifundi og borgarafundi til að mótmæla ástandinu ætti hrós skilið fyrir málefnalega baráttu. „Ef ég væri ekki í ríkisstjórn væri ég þar," sagði Ingibjörg Sólrún.
Hún sagði, að krafan um kosningar endurrómaði í Samfylkingunni enda ætti flokkurinn sér rætur í ríkri lýðræðishefð og flokkurinn skellti ekki skollaeyrum við umræðunni. Þess vegna væri eðlilegt að í þessum nýja flokki endurómaði þessi krafa.
Fyrst fólkið og síðan flokkurinn
Ingibjörg Sólrún sagði, að það hentaði að mörgu leyti Samfylkingunni vel að kjósa nú. Flokkurinn hefði margsinnis bent á það sem fór aflaga í efnahagsstjórn á síðustu kjörtímabilum og hættuna á því að þenja út fjármálakerfið án þess að eiga bakstuðning í Evrópusambandinu og evrunni. Þá hefði flokkurinn góðan stuðning í samfélaginu, það sæist í könnunum.
„En við getum ekki látið það eitt stjórna okkur þegar við tökum afstöðu," sagði Ingibjörg Sólrún. „Í mínum huga er forgangsröðin á svona tímum einföld: Fyrst kemur fólkið og svo flokkurinn."
Hún sagðist vera að tala um fólkið sem væri að missa vinnuna, væri í greiðsluerfiðleikum og sæi fram á að fyrirtækin sín væru að verða gjaldþrota vegna þess að það hefði orðið kerfishrun og engan tíma mætti missa til að reisa nýtt kerfi úr rústum þess sem var.
Ingibjörg Sólrún sagði, að koma þyrfti á starfhæfri bankastarfsemi og tryggja að gjaldeyrismarkaður og fjármálakerfið virki og hjól atvinnulífsins snúist. Þá þurfi að tryggja að fjárlög verði samþykkt, sem tryggi góða grunnþjónustu og stuðning við þá sem minnst hafa á milli handanna. Það yrði mjög erfitt vegna þess að tekjufallið í þjóðfélaginu, og þar með ríkissjóðs, hefði orðið svo mikið.
„Þá verðum við að framkvæma þá efnahagsáætlun, sem við sjálf áttum þátt í að senda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins," sagði Ingibjörg Sólrún. Sagði hún að sú áætlun verði tekin fyrir í febrúar af niðurstöðunni um hvernig til hefði tekist á fyrstu mánuðunum muni ráða því hvort sú lánafyrirgreiðslan, sem Norðurlönd hafa lofað, fæst.
„Við megum ekki gefa okkur kosningabaráttunni á vald, þeim yfirboðum sem henni fylgja og draga athyglina frá þeim verkum sem þarf að vinna," sagði Ingibjörg Sólrún.
Breytingar við stjórnvölinn eðlilegar
Hún sagði eðlilegt og jafnvel óhjákvæmilegt að gera breytingar við stjórnvölinn eftir þær hremmingar sem þjóðin hefði gengið í gegnum. Hins vegar hefði enginn hag af því aðrir en andstæðingar flokksins, að hefja umræðu um slíkt fyrr en ákvarðanir yrðu teknar.
Þá sagði Ingibjörg Sólrún, að umræðan um kosningar yrði einnig að taka mið af því með hverjum Samfylkigin vilji vinna, hvernig Evrópumálunum væri best komið og hvernig flokkurinn ætlaði að standa að því að fá stuðning við aðildarumsókn til Evrópusambandsins í gegn. „Er það ekki mikilvægasta málið?" sagði hún.
Ingibjörg Sólrún sagði, að það væri hreyfing á Evrópusmálinu og þjóðin vildi aðild að ESB. Framundan væri pólitískt uppgjör Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálum og Framsóknarflokkurinn væri að opna á slíka umræðu. „En ég lýsi eftir Evrópustefnu Vinstri grænna," sagði Ingibjörg Sólrún og spurði hvort sú stefna væri bara að loka dyrum eða minnka umsvifin í samvinnu við forustuna í Seðlabankanum, sem Vinstri grænir segðu nú að væri svo málefnaleg.