Álagning ÁTVR ólögmæt

Í nýju áliti umboðsmanns Alþingis segir að verulegur vafi sé á því að þær lagaheimildir sem við geta átt um að fella kostnað ÁTVR á viðskiptavini vínbúðanna séu fullnægjandi miðað við þær kröfur sem leiða af stjórnarskrá og reglum um töku þjónustugjalda hjá ríkinu.

Þegar áfengi er selt í smásölu út úr ÁTVR leggur stofnunin ákveðna prósentu á hverja flösku samkvæmt reglugerð sem fjármálaráðherra setur, t.d. 13% ef um er að ræða venjulega rauðvínsflösku. Þetta er ekki áfengisskatturinn, heldur á þessi álagning að standa undir rekstri ÁTVR og skila arði af rekstrinum.

Er það álit umboðsmanns að ákvæði reglugerðar um að álagning á áfengi í smásölu skuli ákveðin þannig að ÁTVR skili arði sem telst hæfilegur m.a með tilliti til þeirra eigna sem bundnar eru í rekstri ÁTVR hafi ekki fullnægjandi lagastoð. Eins og segir í áliti umboðsmanns: „Geri ég athugasemdir við að nægjanlegar lagaheimildir hafi staðið til þess fyrirkomulags sem fjármálaráðherra hefur viðhaft við ákvörðun álagningar við smásölu áfengis hjá ÁTVR á grundvelli 3. gr. laga nr. 63/1969, um verslun með áfengi og tóbak, og nánar er mælt fyrir um í [reglugerð] um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.“

Böðvar Jónsson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, segir að vegna álits umboðsmanns verði tekið til sérstakrar athugunar í ráðuneytinu hvort ekki sé þörf á að skjóta traustari stoðum undir álagninguna hjá ÁTVR. Athuga verði hvort breyta þurfi lögum í því samhengi. 

Tilurð álits umboðsmanns um lögmæti álagningar hjá ÁTVR er kvörtun Andrésar Þorleifssonar, laganema við Háskóla Íslands. Andrés hafði keypt sér rauðvínsflösku og kvartaði yfir álagningu á áfengi samkvæmt 20. gr. reglugerðar um ÁTVR, en þar er kveðið á um að álagningin skuli ákveðin með tilliti til kostnaðar við smásöludreifingu. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert