Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sagði á fundi flokksstjórnar Samfylkingarinnar í Garðabæ í dag, að alger óvissa ríkti um ástæður þess að hryðjuverkalögum var beitt í Bretlandi gegn Íslandi þar sem ekkert hrun hefði blasað við bresku samfélagi vegna Icesave-reikninganna. Einmitt þetta gæfi færi á málssókn gegn breskum stjórnvöldum.
Ingibjörg Sólrún sagði, að bresk stjórnvöld hefðu þegar fjórum sinnum beitt þessari frostskipun gegn Landsbankanum og áhrifin af þessari ólögmætu aðgerð muni liggja til grundvallar kröfum Íslendinga.
Hins vegar væri einn maður, sem segðist vita um ástæður þess að hryðjuverkalögunum var beitt, en hann vildi ekki segja frá því. Það sé seðlabankastjóri „og það er ótrúlegt að maður í þessari stöðu segist einn vita um ástæðurnar en vilji ekki segja þjóðinni frá því," sagði Ingibjörg Sólrún. Hún bætti við, að þær upplýsingar gætu orðið til þess að Íslendingar þyrftu að endurskoða málssóknarforsendur sínar gagnvart Bretum.
Í ræðu sinni sagði Ingibjörg Sólrún m.a. að atburðarásin, sem Íslendingar væru nú í, hefði hafist 29. september með hruni bankakerfisins. Sama dag hefði Ingibjörg Sólrún fengið að vita að hún væri með heilaæxli.
Hún sagði að bankahrunið hefði í raun haft meiri áhrif á hana en heilaæxlið. „Að fá heilaæxli er eins og hver önnur statistík, það verður einhver að verða fyrir því. Því skyldi ég vera undanþegin því frekar en einhver annar," sagði Ingibjörg Sólrún. „Þetta var ekkert sérstakt áfall og hafði ekki gert nein boð á undan sér. Ég varð að takast á við þann veruleika."