Fanganum sleppt

Haukur Hilmarsson utan við lögreglustöðina eftir að hann var látinn …
Haukur Hilmarsson utan við lögreglustöðina eftir að hann var látinn laus. mbl.is/Júlíus

Hauki Hilmarssyni, sem handtekinn var í gær vegna mótmæla við Alþingishúsið fyrir hálfum mánuði, var sleppt nú laust fyrir klukkan 18 en hópur fólks hafði staðið fyrir mótmælum utan við lögreglustöðina við Hverfisgötu og krafist lausnar mannsins. Óþekktur aðili mun hafa borgað sekt fyrir Hauk.

Allt mun nú dottið í dúnalogn við lögreglustöðina þar sem hafa verið mikil háreysti og pústrar í hátt í tvær klukkustundir og var fjöldinn á fimmta hundrað þegar mest lét. Mótmælunum linnti þegar Haukur gekk út með klút fyrir andlitinu og var honum ákaft fagnað.

Sjálfur sagðist Haukur ekki vita hver hefði borgað sektina fyrir hans hönd og sjálfur hefði hann kosið, að sitja hana af sér í fangelsi.

Haukur  dró Bónusfána að húni á þaki Alþingis fyrir tveimur vikum. Hann var handtekinn í gærkvöld eftir vísindaferð nemenda Háskóla Íslands í Alþingi. Haukur átti þá eftir að afplána fjórtán daga af gömlum átján daga sektardómi sem hann fékk árið 2005  vegna aðgerða samtakanna Saving Iceland sem berjast gegn virkjunum.

Haukur neitaði þá að borga og var  boðaður tveim árum seinna í afplánun, mætti og sat inni í fjóra daga  en var svo sleppt vegna plássleysis. 

Talsverðrar óánægju gætti vegna handtökunnar meðal þeirra, sem tóku þátt í mótmælafundi á Austurvelli í dag og og vék Hörður Torfason, fundarstjóri, að henni þegar hann ávarpaði fundinn. „Við erum ekki hrifin af því að fólk í þessu landi fái ekki að tjá sig. Það á ekki að líðast að mótmælandi sé handtekinn daginn fyrir útifund,“ sagði Hörður. Í kjölfarið hvatti hann viðstadda til að mótmæla þeirri aðgerð.

Hauki fagnað þegar hann kemur út úr lögreglustöðinni.
Hauki fagnað þegar hann kemur út úr lögreglustöðinni. mbl.is/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert