„Vinnan gengur ekki neitt,“ segir Jón Bjarnason, fulltrúi VG í fjárlaganefnd, um störf nefndarinnar og segir erfitt að vinna að fjárlögunum þegar engin þjóðhagsspá liggi fyrir. Sú sem lögð hafi verið fram í haust sé máttlaust plagg og nú þurfi að bíða fyrirmæla frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þá gagnrýnir Jón að fjáraukalagafrumvarp fyrir þetta ár sé ekki komið fram.
Upphaflega var áætlað að fjárlög yrðu tekin til annarrar umræðu í næstu viku en ljóst er að það næst ekki. Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefndar, segir að lögum samkvæmt eigi þriðja og síðasta umræða um fjárlög að fara fram 15. desember. „Það þýðir að mínu mati að önnur umræða verður að fara fram í síðasta lagi 8. desember og við miðum við það,“ segir Gunnar og útskýrir að fjárlaganefnd verði skipt upp í þrjá hópa næstu vikur, í góðu samráði við stjórnarandstöðu.
„Annars vegar verður fundað með ráðuneytunum og hins vegar með þeim hundruðum aðila sem sótt hafa um styrki fyrir næsta ár,“ segir Gunnar.