Báðir formenn stjórnarflokkanna neituðu því í gær að Jónasi Fr. Jónssyni, forstjóra FME, hefði verið skipulega haldið frá umfjöllun fjölmiðla á undanförnum vikum. Geir Haarde kannaðist ekki við að Jónas hefði sérstaklega þagað þunnu hljóði.
„Hann eins og aðrir starfsmenn Fjármálaeftirlitsins hafa verið að vinna baki brotnu, mér liggur við að segja nótt og dag, síðustu vikur við mjög erfið verkefni. Þau hafa öll staðið sig mjög vel. Það er ekkert upp á hann eða starfsfólk Fjármálaeftirlitsins að klaga,“ sagði Geir. Starfsfólk FME hafi lent í aðstæðum sem enginn gat séð fyrir. „Ég held að það hafi unnið mjög gott starf.
Vangaveltur mínar um að sameina eigi Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann hafa ekkert með það að gera hvernig þetta fólk er að standa sig,“ bætti hann við.