Gætu dregið svartapétur

Gunnar Helgi Kristinsson prófessor.
Gunnar Helgi Kristinsson prófessor. mbl.is/Ómar

Staðan sem komin er upp í landsmálunum er sú flóknasta sem hér hefur verið um árabil. Þetta segir Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann segir yfirlýsingar tveggja ráðherra Samfylkingarinnar, viðskipta- og umhverfisráðherra, um að það eigi að kjósa, gefa vísbendingar um mikinn óróleika innan Samfylkingarinnar.

„Ég get ekki séð hvernig Samfylkingin ætlar að spila úr því. Þetta er mjög snúin staða og lítur út eins og Ingibjörg sé að missa tökin, sem hlýtur að vera mjög alvarlegt áhyggjuefni fyrir hana.“

Sú spurning vakni hvort formaðurinn ráði ekkert við framvinduna innan flokksins eða hvort flokksmenn séu búnir „að ákveða að þetta sé búið“. Kjósi Samfylkingin hins vegar að slíta stjórnarsamstarfinu geti hún ekki knúið fram kosningar, nema hafa fyrst samið um það við meirihluta þingsins. Til þess þurfi Samfylkingin samkomulag bæði við Framsóknarflokk og VG. „En þá á Sjálfstæðisflokkurinn einn leik eftir, sem er að semja sjálfur við Vinstri græn,“ segir Gunnar Helgi en bætir við að slíka stjórn yrði mjög erfitt að mynda pólitískt séð.

Gunnar Helgi vísar til nýlegrar könnunar Morgunblaðsins á fylgi flokkanna. Þar komi fram að þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi tapað fylgi, sem að miklu leyti hafi runnið til Samfylkingar, hafi Samfylkingin líka tapað fylgi yfir til Vinstri grænna.„Það mætti hugsa sér það að tækist Sjálfstæðisflokknum að taka sig saman í andlitinu og koma með trúverðugt útspil, gæti fylgið sem Samfylking hefur tekið af sjálfstæðismönnum gengið til baka og Samfylkingin sæti eftir með svartapétur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert