Íslendingar láti ekki kúga sig

Mótmælafundur 22. nóvember
Mótmælafundur 22. nóvember Mbl.is/Júlíus

Katrín Oddsdóttir laganemi hóf mótmælafundinn á Austurvelli í dag með ræðu þar sem hún ávarpaði Geir H. Haarde forsætisráðherra og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra. Hún sagði mannréttindi íslensku þjóðarinnar hafa verið brotin af ríkisstjórninni en þjóðin léti ekki bjóða sér að láta kúga sig.

Á meðan hafa aðgerðarsinnar klifrað upp á styttuna af Jóni Sigurðssyni og klæða hann í bleikan kufl. Þúsundir manna eru nú staddir á Austurvelli.

„„Við látum ekki kúga okkur“ sagði Geir Haarde forsætisráðherra fyrir tveimur vikum síðan. Örfáum dögum síðan handsalaði hann samning sem gerir okkur að einni skuldsettustu þjóð í heimi,“ sagði Katrín. „Ef hann vildi vera nákvæmur hefði Geir getað sagt „við látum ekki kúga okkur, en það eru góðar líkur á því að við látum kúga ykkur, íslensku þjóðina““ bætti hún við við háværar undirtektir viðstaddra.

Katrín sagði að ráðherrarnir hefðu svipt þjóðina þeim grundvallarrétt að geta farið með mál sitt fyrir dómstóla, þjóðin hafi ekki fengið og muni aldrei fá tækifæri til að láta reyna á sínar hliðar.

„Geir virtist algjörlega tilbúinn til að láta kúga sig ein Geir minn, þó þú sért tilbúinn til að láta kúga þig þá þýðir það ekki að við séum tilbúin til að láta kúga okkur. Þess vegna erum við hér í dag.“

Þá spurði Katrín hvernig Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún dirfðust að segja við þjóðina að kosningar séu útilokaðar á meðan fólkið í landinu mæti þúsundum saman á Austurvöll í hverri viku og krefjist kosninga. Hún sagði jafnframt að það jafngilti stríðsyfirlýsingu gegn þjóðinni að ráða norskan hernaðarsérfræðing til að ráðleggja sér hvernig halda mætti upplýsingum frá fjölmiðlum og þar með þjóðinni.

Í lok ræðunnar las Hörður Torfason, fundarstjóri upp stuðningskveðju frá 30 manna hópi á Ísafirði. Þá skoraði hann á Íslendinga alla til að leggja niður vinnu og mæta á stóran útifund klukkan þrjú þann 1. desember við Arnarhól.

Jón Sigurðsson bleiklæddur
Jón Sigurðsson bleiklæddur Mbl.is/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert