Um 2-300 manns mótmæla nú framan við lögreglustöðina á Hverfisgötu með miklu háreysti. Mótmælin beinast gegn þeirri aðgerð lögreglu að handtaka piltinn sem flaggaði Bónusfána á Alþingishúsinu fyrir tveimur vikum síðan. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa nokkrar rúður verið brotnar á lögreglustöðinni.
Lögreglan á í fullu fangi að hindra mótmælendur í að brjótast inn á lögreglustöðina. Um 20 lögreglumenn hafa stillt sér upp í óeirðarbúningum umhverfis húsið og eru við öllu búnir. Piparúði hefur verið notaður til að halda fólki frá. Einhverjir mótmælenda hafa grýtt eggjum að lögreglustöðinni og hrópa samstillt „Út með Hauk“ með vísan í manninn sem handtekinn var í gærkvöldi, en þau krefjast þess að hann verði leystur úr haldi.
Talsverðrar óánægju hefur gætt vegna handtökunnar og vék Hörður Torfason að henni í mótmælunum á Austurvelli. „Við erum ekki hrifin af því að fólk í þessu landi fái ekki að tjá sig. Það á ekki að líðast að mótmælandi sé handtekinn daginn fyrir útifund,“ sagði Hörður. Í kjölfarið hvatti hann viðstadda til að mótmæla þeirri aðgerð.
Mótmælendur telja að maðurinn hafi verið handtekinn á þessum tímapunkti gagngert til að koma í veg fyrir að hann gæti tekið þátt í mótmælunum í dag.
Í samtali við blaðamann Morgunblaðsins benti Hörður Torfason á að maðurinn hefði engan fyrirvara fenginn áður en hann var handtekinn í miðjum gleðskap í gærkvöldi. „Lögum samkvæmt á að boða fólk í afplánun með þriggja vikna fyrirvara en hann fékk engin skilaboð heldur var færður fyrirvaralaust í fangelsi.“