Neyðarstjórn kvenna hefur lýst á hendur sér þeim gjörningi sem framkvæmdur var á Austurvelli á meðan mótmælafundinum stóð, þegar stytta Jóns Sigurðssonar var klædd í „kjól með þjóðlegu ívafi.“ Var það gert til að minna á að frá upphafi byggðar á Íslandi hafi konur ávallt verið helmingur þjóðarinnar.
„Hér eftir vilja konur að karlar og konur fari jafnt með völdin á öllum sviðum samfélagsins. NÚNA er rétti tíminn,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.
Neyðarstjórn kvenna var stofnuð þann 28. október síðastliðinn að frumkvæði kvenna sem þótti nóg um ástandið og vildu efla rödd kvenna í umræðunni. Síðan þá hafa um 2.000 konur skráð sig í Neyðarstjórn kvenna og hefur hópurinn því vaxið hratt.
Í ályktun frá hópnum segir m.a. „Dæmin víða um heim sýna að í kreppum hefur mest kapp verið lagt á það að tryggja karlmönnum atvinnu með ýmiskonar framkvæmdum á vegum ríkisins. Neyðarstjórn kvenna leggur áherslu á að konur og karlar sitji við sama borð í slíkum aðgerðum á næstu misserum og vill samfélag sem byggir á þátttöku, gagnsæi og virðingu.
Neyðarstjórn kvenna leggur ennfremur á það áherslu að stjórnir Seðlabankans og FME séu faglegar en ekki pólitískar og vekur athygli á þeim konum sem hafa menntun á þessu sviði.“