Stjórnarsáttmáli heyrir sögunni til

Þingflokkur Samfylkingarinnar.
Þingflokkur Samfylkingarinnar. mbl.is/ÞÖK

Búist er við heitum umræðum á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag, þeim fyrsta sem flokkurinn heldur eftir efnahagshrunið. Einkum er ræðu formannsins, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, beðið með eftirvæntingu, en hún sagði eftir ríkisstjórnarfund í gær að hún teldi ekki tímabært að boða til kosninga í „miðjum björgunarleiðangri“.

„Þetta hefur vond áhrif inn í hópinn og veldur mikilli gremju,“ segir flokksmaður um þessa yfirlýsingu Ingibjargar. Fólk vantreysti þó ekki fulltrúum flokksins og formaðurinn þurfi ekki að óttast hallarbyltingu.

Sterk krafa virðist innan flokksins um kosningar. Það á ekki síst við um grasrótina, en fjögur Samfylkingarfélög hafa ályktað um þetta. Þá hafa tveir ráðherrar, Björgvin G. Sigurðsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir, lýst því að kjósa eigi að nýju. Fjórir þingmenn flokksins að auki hafa gert slíkt hið sama, þau Ágúst Ólafur Ágústsson, Ellert B. Schram, Katrín Júlíusdóttir og Steinunn Valdís Óskarsdóttir.

Þeirra hugmyndafræði hrundi

„Við stöndum á veikum grunni. Það er allt traust farið í samfélaginu og allt traust farið á Alþingi.“ Annar þingmaður sagði ljóst að allt önnur viðhorf væru uppi innan samstarfsflokksins. „En þeir eru líka í annarri stöðu og eru að gera málin upp með allt öðrum hætti. Þetta var þeirra hugmyndafræði sem hrundi.“

Að sögn varaþingmanns í Samfylkingunni ríkir mikil reiði meðal almennra félaga vegna stöðunnar. „Það er mikill órói og óþol gagnvart ríkisstjórninni og því að Samfylkingin sé að verða samábyrg Sjálfstæðisflokknum.“ Stjórnarsáttmálinn heyri sögunni til. Ekki sé þó endilega meirihluti fyrir því innan flokksins að slíta stjórnarsamstarfinu. Komi ekki til kosninga sé ljóst að verulegar breytingar verði að eiga sér stað, m.a. í ráðuneytunum.

Annar samfylkingarmaður telur að óþolið innan flokksins tengist því helst að fólki finnist ganga hægt hjá ríkisstjórninni að koma í framkvæmd þeim málum sem samstaða sé um innan flokksins, t.d. varðandi stjórn Seðlabanka og Evrópumálin.

Geti Sjálfstæðisflokkurinn ekki horfst í augu við hvað þarf að gera vakni spurningar um hvort hann sé í það mikilli rúst að hann geti leitt stjórn við þessar aðstæður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert