Ragnar Aðalsteinsson, hæstaréttarlögmaður, sagði í fréttum Ríkisútvarpsins að engin heimild sé í lögum fyrir því að handtaka mótmælandann á föstudaginn. Lögreglan hafi hins vegar verið öllu liðlegri þegar hún sleppti manninum daginn eftir.
Maðurinn var handtekinn vegna þess að hann átti eftir að sitja af sér fjórtán daga fangelsi vegna sektar sem hann hafði ekki greitt. Hann hafði setið fjóra daga í fangelsi en síðan verið sleppt þar sem fangelsið var yfirfullt.
Ragnar sagði að ekki sé heimild í lögum fyrir handtöku á þessum forsendum. Hver maður sjái hversu hættulegt það væri að heimila stjórnvöldum, lögreglu eða dómsmálaráðuneyti, slíkar aðferðir því þá gætu þau margskipt refsingum og hagað því þannig að hinn seki vissi aldrei hvenær hann gæti búist við refsingu og hvenær hann yrði settur inn. Slíkt sé óbærilegt og standist ekki í réttarríki.
Ragnar segir að tilkynna hefði þurft manninum með þriggja vikna fyrirvara að hann þyrfti að hefja afplánun að nýju. Lögreglan hafi hins vegar verið öllu liðlegri þegar manninum var sleppt í gær, enda hafi lögreglunni ekki verið stætt á að halda honum lengur þegar sekt hans hafi verið greidd.
Ragnar sagði að það hvarflaði að sér að tilgangurinn með handtökunni hafi í raun verið að senda mótmælendunum skilaboð. Slíkt sé tíðkað í ýmsum löndum, sem Íslendingar vilji síst kenna sig við, að götur og stræti séu hreinsaðar fyrir vissar athafnir.