Það er fráleitt að mati Stefáns Eiríkssonar lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu að handaka mótmælandans sl. föstudag hafi verið ólögmæt. „Fangelsismálastofnun og Innheimtumiðstöð sekta- og sakakostnaðar skrá inn þessa handtökubeiðni og eftirlýsingu í lögreglukerfið og þá liggur væntanlega fyrir hjá þeim að öllum lögmætum frestum og þeim skilyrðum sem sett eru fyrir boðun í afplánun hafi verið fylgt,“ segir Stefán.
Málið hafi einfaldlega lent á borði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu því að maðurinn hafi fundist í því umdæmi. „Hvar svo sem að hann hefði fundist þá hefði lögreglan þurft að bregðast við með þessum sama hætti.“
Þegar þess sé óskað að einstaklingur sé handtekinn af því að hann þurfi að sæta afplánun sé það gert með þeim hætti að rekist lögreglan á viðkomandi þá sé hann handtekinn og haft samband við fangelsismálastofnun eða innheimtumiðstöðina um næstu skref. Enginn leit hafi verið í gangi að þessum manni, en upplýsingar hafi borist um hvar viðkomandi var staddur og þá hafi verið brugðist við því.