Gæti þurft að leggja skipunum

Vera kann að leggja þurfi einhverjum björgunarskipanna um óákveðin tíma.
Vera kann að leggja þurfi einhverjum björgunarskipanna um óákveðin tíma. Morgunblaðið/Júlíus

Ríkið skuldar Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu 45 milljónir króna vegna reksturs þeirra 14 björgunarskipa sem samtökin halda úti víðsvegar við strendur landsins. Hafa framlög til Slysavarnafélagsins verið skert um 15 milljónir á ári sl. þrjú ár og illa gengið að ná fram leiðréttingu. 

Að sögn Kristins Ólafssonar, framkvæmdastjóri Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, getur það haft alvarlegar afleiðingar fyrir rekstur skipanna skili peningarnir sér ekki fljótlega. „Það getur jafnvel farið svo að við verðum að leggja stórum hluta þessara skipa í ótilgreindan tíma og það yrði ekki gott,“ segir Kristinn.

Það var árið 2005 sem Slysavarnarfélagið gerð samning við ríkið um rekstur björgunarskipanna 14.  En í undanfara þess samnings fengu samtökin eingreiðslu upp á 15 milljónir kr. til að fjölga skipunum. „Síðan virðast þau mistök hafa verið gerð í fjárlagagerðinni að þessi 15 milljón króna mínustala hékk inni og því hafa framlög til félagsins verið skert sl. þrjú ár.“ 

Slysavarnarfélagið hefur í samstarfi við Dómsmálaráðuneytið verið að  leita leiðréttingar og tók langan tíma að finna út hvaða hluti rekstrarstyrkja félagsins var ekki að skila sér. „Það var ekki fyrr en núna á sumarmánuðum að menn voru orðnir sammála um hvað vantaði upp á og af hverju.“ 

Á fulltrúafundi Slysavarnarfélagsins, sem var haldinn í gær, var samþykkt áskorun um að 45 milljónirnar verði greiddar. „Núna stendur yfir vinna við fjárlögin og við erum bjartsýn á að þessi leiðrétting verði gerð. Það er enda mjög mikilvægt fyrir félagið að þetta skili sér. Peningunum hefur nú þegar verið ráðstafað í reksturinn og það erfitt að vera með svona stóran mínus í bókhaldinu,“ segir Kristinn. En fjárhæðin sé, samkvæmt sínum upplýsingum, það há að ríkið hafi ekki heimild til að greiða hana nema til komi leiðrétting á fjáraukalögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka