Rotaður undir stýri fyrir norðan

Bílvelta varð rétt hjá Húsavík á fimmta tímanum. Ökumaður slapp …
Bílvelta varð rétt hjá Húsavík á fimmta tímanum. Ökumaður slapp lítið meiddur mbl.is/Július

Jeppi gjöreyðilagðist eftir veltu í Laxamýrarleiti, rétt sunnan við Húsavík á fimmta tímanum í dag. Lögreglan á Húsavík var kölluð á vettvang. Ökumaðurinn, sem var einn í bílnum, var sendur til skoðunar á sjúkrahúsinu á Húsavík. Hann reyndist hafa sloppið við alvarleg meiðsli en var skrámaður og marinn. Hann hafði misst stjórn á bílnum í hálku og hafnað utan vegar.

Jeppinn valt tvo heila hringi og við það rotaðist bílstjórinn. Jeppinn hafnaði á réttum kili, en þá vildi ekki betur en svo til að eldsneytisgjöfin festist í botni og bíllinn rauk aftur af stað. Lögreglumenn sem skoðuðu vettvanginn sáu á hjólförum bílsins að hann hafði rokið af stað aftur og tekist á loft þegar hann fór yfir veginn. Þarna hefur því mikið gengið á. Hann fór svo aftur út í móa og festist 70 metra frá veginum. Enn var ökumaðurinn meðvitundarlaus þegar hér er komið við sögu, en þegar hann rankaði við sér var vélin enn í gangi og á fullum snúningi, að sögn lögreglu. Vegfarandi hringdi eftir hjálp.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert