Stjórnmálakreppa ríkir

Þorvaldur Gylfason.
Þorvaldur Gylfason. mbl.is/Kristinn

Þorvaldur Gylfason, prófessor, sagði í Silfri Egils í  Sjónvarpinu í dag, að hér á landi ríki stjórnmálakreppa  en hér sé ríkisstjórn, sem ráði 70% þingsæta og njóti fylgis 30% þjóðarinnar. Því eigi hún að víkja.

Þá sagði Þorvaldur að það væru grafalvarleg mistök, að ekki sé búið að skipta um bankastjórn í Seðlabankanum. Einnig nái engri átt að skilanefndir gömlu bankanna þriggja skuli starfa undir leyndarhjúp.  Þær litlu upplýsingar, sem fólkið fái, þurfi að toga upp úr stjórnvöldum með töngum.

Vilhjálmur Bjarnason, aðjunkt, sagðist í þættinum hafa skoðað útlán gömlu bankanna þriggja og sér sýndist, að þriðjungur útlána þeirra hefði verið til eignarhaldsfélaga, eða um 1700 milljarðar af 5000 milljarðra heildarútlánum. Þessi upphæð hefði rúmlega tvöfaldast á einu ári. Þá hefðu útlán til þjónustu þrefaldast á einu ári. Samanlagt námu útlán til þessara tveggja atvinnugreina helmingi af útlánunum.

Vilhjálmur sagði að svo virtist sem þessir 1700 milljarðar hefðu verið froða. Nú virtust þessi sömu eignarhaldsfélög vera að hefja nýjan hring með aðstoð gömlu stjórnenda bankanna.

Hann sagðist aðspurður halda, að frásagnir í fréttaskýringu Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu í dag væru réttar en  þar er því er lýst hvernig verklagsreglur við tugmilljarða lánveitingar hjá Glitni voru brotnar í nokkrum tilvikum í fyrrahaust. Vilhjálmur sagði þessar upplýsingar vera í samræmi við upplýsingar sem hann hafi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert