Vefarinn mikli frá Kasmír, eftir Halldór Laxness, hefur nú verið gefinn út í enskri þýðingu Philips Roughtons í Bandaríkjunum í fyrsta skipti. Fjallað er um bókina í bandaríska blaðinu Los Angeles Times í dag en þar kemur fram að á síðasta áratug hafa átta skáldverk eftir Laxness komið út í Bandaríkjunum.
Í grein um bókina segir rithöfundurinn Bill Holm, að Bandaríkjamenn séu stundum ekkert vissir um hvar eða hvað Ísland sé en í bókmenntaheiminum sé Ísland einskonar heilagt land þar sem lítil þjóð á hjara veraldar hafi framleitt merkar evrópskar bókmenntir í þúsund ár. Raunar megi færa rök fyrir því að tungumálið og bókmenntirnar hafi haldið þjóðinni á lífi - og tryggt henni sjálfstæði að mestu - í árþúsund.
Þá segir Holm að Vefarinn mikli frá Kasmír hafi verið jarðýtan, sem Halldór Laxness notaði til að ryðja fyrsta veg íslenskra bókmennta inn í 20. öldina. Segir Holm að íslenskir rithöfundar hafi fullyrt við sig, að hvað svo sem útlendingum kunni að finnast um þessa merkilegu en rytjulegu bók, þá skilji þeir að hún hafi gert Íslendingum kleift að skrifa nútímabókmenntir; skrifa sig framhjá Íslendingasögunum.
Holm segir að Vefarinn sé ekki skynsöm bók. Í henni sé varla að finna það sambland af viðkvæmni og kaldhæðni sem einkenni stærstu verk Halldórs og einnig vanti kímnina. Það sé hins vegar mikil spenna í Vefaranum sem minni á hina óbeisluðu orku On the Road, eftir Jack Kerouac, þótt Halldór hafi væntanlega ekki skrifað bókina á eina langa pappírsrúllu. Vísar Holm til þess að Halldór hafi sjálfur sagt árið 1948 að helsti galli bókarinnar sé að hún hafi aldrei verið umskrifuð.